Stykkishólmsbær

Stykkishólmur er bær og sveitarfélag við Breiðafjörð á norðanverðu Snæfellsnesi. Stykkishólmur er stærsti þéttbýliskjarninn á Snæfellsnesi. Bæjarbúar í Stykkishólmi eru í daglegu tali nefndir Hólmarar. Sjávarútvegur hefur verið einn helsti atvinnuvegurinn í Stykkishólmmi og skelveiðar þá sérstaklega en meira er orðið um ferðaþjónustu og annan þjónustuiðnað.

Bærinn hefur frá 19. öld verið miðstöð verslunar og þjónustu fyrir Breiðafjörð og nærliggjandi svæði. Elstu heimildir um verslun í Stykkishólmi eru frá 1597, þá þegar Þjóðverji að nafni Carsten Bache fékk leyfi til verslunar þar. Um það leiti var einnig verslun í Búðarnesi, en hún lagðist af þremur árum síðar. Síðan hefur verið verslun óslitið í Stykkishólmi, enda þótti staðurinn liggja mjög fyrir sem verslunarmiðstöð fyrir allt Snæfellsnes.

Stykkishólmsbær er aðili Earth Check verkefninu, sem öll sveitarfélög á Snæfellsnesi standa að og felst í því að sættast á sameiginlega stefnumótun í sjálfbærri þróun í umhverfis- og samfélagsmálum á Snæfellsnesi með aðaláherslu á ferðaþjónustu.