Sameining sveitarfélaga

 

Um sameiningar sveitarfélaga gilda ákvæði XII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þar er mælt fyrir um aðdraganda og undirbúning íbúakosningar um sameiningu, fjármögnun sameiningarverkefna, stjórnun sveitarfélaga eftir að sameining hefur verið samþykkt og gildistöku nýs sveitarfélags.

Ef tvær eða fleiri sveitarstjórnirnar ákveða að hefja formlegar sameiningarviðræður skv. 119. grein laganna skipa þær samstarfsnefnd sem fær það verkefni að kanna möguleika á sameiningu viðkomandi sveitarfélaga og undirbúa íbúakosningar. Samstarfsnefndin hefur nokkuð frjálsar hendur um það hvernig hún vinnur, en í lögunum er gert ráð fyrir að hún skili áliti til hlutaðeigandi sveitarstjórna. Hefð hefur skapast fyrir því að samstarfsnefndir stilli upp framtíðarsýn fyrir sameinað sveitarfélag sem íbúar geta borið saman við núverandi stöðu.

Álit samstarfsnefndar er tekið til umræðu í sveitarstjórnum sveitarfélaganna, sem einnig ákveða hvenær kosningar um sameiningu skuli fara fram. Álit samstarfsnefndar skal kynnt með að lágmarki tveggja mánaða fyrirvara áður en kosningar fara fram, til að gefa íbúum kost á að taka afstöðu til spurningarinnar um sameiningu.

Kjörnefndir sveitarfélaganna sjá um að halda kosningarnar eins og um sveitarstjórnarkosningar væri að ræða. Sömu reglur gilda um atkvæðisrétt og við kosningar til sveitarstjórna. Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu, hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, 18 ára og eldri, hafa kosningarétt ef þeir eru með skráð lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu. Aðrir erlendir ríkisborgarar hafa kosningarétt hafi þér átt skráð lögheimili hér á landi þrjú ár samfleytt fyrir kjördag.

Niðurstaða kosninga er bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir. Ef sameiningin er samþykkt er skipuð undirbúningsstjórn sem á að undirbúa gildistöku nýs sveitarfélags. Undirbúningsstjórnin gerir tillögu til ráðherra sveitarstjórnarmála um það hvenær ný sveitarstjórn skuli kosin, semur samþykktir fyrir nýja sveitarfélagið og tekur saman upplýsingar um reglur, samþykktir og gjaldskrár sem þarf að samræma.

Ný sveitarstjórn tekur við stjórn hins nýja sveitarfélags 14 dögum eftir kjördag og þá er hið nýja sveitarfélag formlega orðið til.