Spurt og svarað

 • Hver er munurinn á formlegum og óformlegum viðræðum?

  Formlegar viðræður um sameiningu fara fram samkvæmt ákvæðum 119. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011. Ferlinu því lýkur með atkvæðagreiðslu á meðal íbúa og niðustöður atkvæðagreiðslunnar í hverju sveitarfélagi eru bindandi fyrir viðkomandi sveitarstjórn. Í ákvörðun um þátttöku í formlegum viðræðum felst því skuldbinding sveitarstjórnar til að láta fara fram atkvæðagreiðslu og til að fylgja niðurstöðum hennar.

  Óformlegar viðræður fela ekki í sér skuldbindingu af hálfu hlutaðeigandi sveitarstjórna. Þær ráða hvernig viðræðurnar fara fram og geta hver um sig tekið ákvörðun um að hætta viðræðum ef þeim sýnist svo.

   

 • Hverjir sitja í samstarfsnefnd um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar?

  Samstarfsnefndin er skipuð fimm aðalmönnum í sveitarstjórn Helgafellssveitar og aðalmönnum í bæjarráði Stykkishólmsbæjar ásamt áheyrnarfulltrúa og bæjarstjóra. Eftirtaldir sitja í samstarfsnefndinni:

  Frá Helgafellssveit:

  • Guðlaug Sigurðardóttir
  • Guðmundur H. Hjartarson
  • Guðrún Reynisdóttir
  • Karín Rut Bæringsdóttir
  • Sif Matthíasdóttir

  Frá Stykkishólmsbæ:

  • Haukur Garðarsson
  • Hrafnhildur Hallvarðsdóttir
  • Jakob Björgvin Jakobsson
  • Lárus Hannesson
  • Steinunn Ingibjörg Magnúsdóttir

  Jakob Björgvin Jakobsson var kjörin formaður nefndarinnar.

 • Hvaða tækifæri og áskoranir liggja nú þegar fyrir eftir fyrstu fundi samstarfsnefndar um sameininguna?

  Tækifæri liggja helst í að bæta þjónustu við íbúa beggja sveitarfélaga, þó sérstaklega íbúa dreifbýlisins með jöfnun aðgengi að þjónustu milli íbúa, auka fjárfestingagetu sameinaðs sveitarfélags og skapa þannig tækifæri til fjárfestinga sem nýtist íbúum beggja sveitarfélaga, t.a.m. með því að byggja við skólahúsnæði, bæta aðstöðu fyrir aldri borgara og íþróttaaðstöðu, og auka slagkraft til að bæta samgöngur og þjónustu hins opinbera. Þá eru tækifæri til þess að sameiginlegt sveitarfélag geti betur skapað heilstætt og kröftugt umhverfi á öllu svæðinu fyrir öflugt atvinnulíf og aukna samvinnu. Áskoranirnar lúta fyrst og fremst að mismunandi skatthlutföllum og áhyggjum íbúa í dreifbýli af því að missa áhrif á ákvarðanir í nærumhverfi sínu, en unnið hefur verið að því að mæta þessum áskorunum, t.a.m. með því að leggja til að stofnað verði sérstakt sveitarráð sem fjalli sérstaklega um hagsmuni dreifbýlisins.

 • Hvenær verður kosið um sameiningu sveitarfélaganna?

  Atkvæðagreiðsla um sameininguna fer fram 26. mars 2022 í báðum sveitarfélögum.

 • Fær Helgafellssveit sömu þjónustu og Stykkishólmur ss snjóhreinsun á afleggjurum?

  Þjónustan er mismunandi í dag og almennt er meiri snjómokstursþjónusta í þéttbýli en dreifbýli. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa átt fund með Vegagerðinni og lagt áherslu á aukna vetrarþjónustu á stofnvegum. Vegagerðin sýndi þeim áherslum skilning og vill bæta þjónustuna. Vegagerðin kemur ekki að snjómokstri afleggjara aðeins stofnbrauta.
 • Verður hluta af þeim fjármunum sem koma við sameiningu varið í að laga og setja slitlag á afleggjara?

  Það verður nýrrar sveitarstjórnar að ákveða nýtingu fjármagnsins, en samstarfsnefndin leggur til að viðhald á félagsheimilinu Skildi og viðbygging við Grunnskólann í Stykkishólmi verði í forgangi. Það er á ábyrgð Vegagerðarinnar að leggja slitlag á stofn- og tengivegi. Uppbygging nýrra héraðsvega er á sameiginlega ábyrgð umsækjanda og Vegagerðarinnar, en inni í því er ekki slitlag. Umsækjandi getur verið landeigandi eða sveitarfélag. Það er á ábyrgð Vegagerðarinnar að sinna viðhaldi veganna.

 • Hvernig verður skólaakstri háttað ef af sameiningu verður?

  Ekki er gert ráð fyrir breytingum á skólaakstri við sameiningu sveitarfélaganna, nema foreldrar hafi áhuga á að endurskoða það fyrirkomulag sem er í gildi. Samstarfsnefndin leggur til að útbúin verði aðstaða fyrir nemendur úr dreifbýli til frístundastarfs í Grunnskóla Stykkishólms eða í félagsmiðstöðinni X-inu eftir að skóla lýkur til kl. 16:00 og að dag- og tómstundastarfi verði fundinn framtíðarstaður með viðbyggingu við grunnskólann. Jafnframt að skipulag íþrótta- og tómstundastarfs miðist við að börn og ungmenni úr dreifbýli geti lokið sinni iðkun innan dagsins.

 • Er möguleiki á því að nýtt sveitarfélag niðurgreiði hitunarkostnað með t.d. varmadælum?

  Það verður nýrrar sveitarstjórnar að taka afstöðu til þess hvort sveitarfélagið veiti niðurgreiðslur til kaupa á varmadælum. Vakin er athygli á því að ríkið greiðir niður dreifi- og flutningskostnað raforku til hitunar heimila, til að jafna búsetuskilyrði. Þeir notendur sem njóta niðurgreiddrar rafhitunar eiga þess kost að sækja um eingreiðslu til Orkustofnunar vegna kaupa á varmadælu.

  Sjá nánar hér á vef Orkustofnunar

 • Hvernig deilist jöfnunarsjóðsframlagið á milli sveitarfélaga?

  Jöfnunarsjóðsframlagið berst til sameinaðs sveitarfélags og ný sveitarstjórn ákveður hvernig því verður ráðstafað. Samstarfsnefnd leggur til að framlagið verði nýtt til að auka fjárfestingagetu sveitarfélagsins, m.a. til að sinna viðhaldi á Félagsheimilinu Skildi og byggja við Grunnskólann í Stykkishólmi.

  Í minnisblaði um fjármál má finna upplýsingar um hvernig framlagið er myndað, en um 519 mkr. eru tilkomnar vegna Stykkishólmsbæjar og 100 mkr. vegna Helgafellssveitar.
   
 • Þurfa íbúar beggja sveitarfélaga, meirihluti hvors um sig, ekki að samþykkja svo af sameiningu verði?

  Einfaldur meirihluti í hvoru sveitarfélagi fyrir sig ræður niðurstöðu í sameiningarkosningum. 

   

   

 • Hvers vegna er ekki verið að ræða sameiningu fleiri sveitarfélaga á Snæfellsnesi eða sameiningu við Dalabyggð?

  Stykkishólmsbær og Helgafellssveit hafa átt í óformlegum sameiningarviðræðum við Dalabyggð undanfarin misseri. Það samtal hefur verið jákvætt, enda eiga þessi sveitarfélög ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta, t.a.m. þegar kemur að þróun mála á Breiðafirði, nýtingu auðlinda Breiðafjarðar og samgöngumála.

   

  Sameining allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur verið til umræðu af og til um langt skeið. Hafa Stykkishólmsbær og Helgafellssveit átt í góðri samvinnuvið önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi, hvort sem er í gegnum formlegt samstarf í formi sameiginlegs byggðasamlags eða óformlegri samvinnu vegna ýmissa sameiginlegra hagsmunamála.

   

  Að mati sveitarstjórnanna er hins vegar æskilegt að gefa íbúum tækifæri til að kjósa um þennan sameiningarvalkost fyrst með það fyrir augum skapa svigrúm til innviðafjárfestinga fyrir íbúa beggja sveitarfélaga, formbinda valdeflingu Helgfellinga með sveitarráði, einfalda framtíðar sameiningarviðræður og til þess að efla og jafna sem fyrst þjónustustig milli þessara tveggja sveitarfélaga með það fyrir augum að efla þjónustu við dreifbýlið. Mun sameining Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar ekki útiloka stærri sameiningu í framtíðinni.

 • Þurfa íbúar beggja sveitarfélaga, meirihluti hvors um sig, ekki að samþykkja svo af sameiningu verði?

  Einfaldur meirihluti í hvoru sveitarfélagi fyrir sig ræður niðurstöðu í sameiningarkosningum. 

   

   

 • Af hverju ekki að taka skrefið til fulls og ræða sameiningu við Dalasýslu eða sameiningar allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi við fleiri sveitarfélög við Breiðafjörð?

  Stykkishólmsbær og Helgafellssveit hafa átt í óformlegum sameiningarviðræðum við Dalabyggð undanfarin misseri, enda eiga þessi sveitarfélög ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Sameining allra sveitarfélaga á Snæfellsnesi hefur verið til umræðu af og til um langt skeið.

  Óformlegt samtal allra sveitarfélaga við Breiðafjörð um sameiningu á Breiðafirði hefur enn ekki átt sér stað nema í umræðum milli einstakra sveitarfélaga, en kemur vel til greina. Að mati sveitarstjórnanna er hins vegar æskilegt að gefa íbúum tækifæri til að kjósa um þennan sameiningarvalkost en það útilokar ekki stærri sameiningu í framtíðinni.

 • Ef sameiningin verður samþykkt, hvað mun sveitarfélagið heita?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

  Ekki liggur fyrir tillaga þess efnis, en vinnuheiti sameiningarnefndar er Breiðfirðingur.

 • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

   

   

 • Hverjir hafa kosningarétt í atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga?

  Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu, hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, 18 ára og eldri, hafa kosningarétt ef þeir eru með skráð lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu. Aðrir erlendir ríkisborgarar hafa kosningarétt hafi þér átt skráð lögheimili hér á landi þrjú ár samfleytt fyrir kjördag. Sömu reglur gilda þegar kosið er til sveitarstjórna.

   

   

 • Er atkvæðagreiðslan bindandi?

  Já, niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir.

   

   

 • Fá íbúar að taka þátt í mótun tillögunnar?

  Já. Íbúafundir verða haldnir til að fá sjónarmið og ábendingar frá íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin leggja áherslu á virkt samráð við íbúa og lét það vera sitt fyrsta verk að halda samráðsfundi í hvoru sveitarfélagi, sem fram fóru fyrir jól.

  Á komandi íbúafundum vegna verkefnisins verður kynning á stöðu verkefnisins og umfjöllun um stöðu málaflokka í starfsemi sveitarfélaganna og mögulegar breytingar ef til sameiningar kemur. Á fundunum verður notað rafrænt samráðskerfi svo allir sitji við sama borð, þ.e. þeir sem mæta á fundarstað og þeir sem fylgjast með í streymi. Auk þess verður boðið upp á spurningar og ábendingar úr sal og leitast verður eftir sjónarmiðum íbúa áður en tillaga nefndarinnar liggur endanlega fyrir.

 • Hvernig er hægt að tryggja að í nefndum sameinaðs sveitarfélagsins sitji fulltrúar frá mismunandi svæðum?

  Það verður ekki tryggt, en líkurnar aukast með fleiri með fulltrúum. Framboðin hafa hagsmuni af því að ná til íbúa af öllu svæðinu.

   

   

 • Mun samstarfsnefndin fylgja vinnunni eftir ef af sameiningu verður?

  Samkvæmt lögunum verður skipuð undirbúningsstjórn, sem er yfirleitt skipuð sama fólki og sat í samstarfsnefndinni.

   

   

 • Er einhver lágmarksþátttaka í kosningum um sameinað sveitarfélag?

  Nei. Meiri hluti kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi ræður niðurstöðu kosningar um sameiningu.